Íslenski boltinn

Titilvonir FH lifa enn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Viðar Björnsson skoraði tvö og lagði upp eitt í dag.
Atli Viðar Björnsson skoraði tvö og lagði upp eitt í dag. Mynd/Anton Brink

FH vann í dag sannfærandi 3-0 sigur á Breiðabliki í frestuðum leik úr átjándu umferð Landsbankadeildar karla.

Öll mörkin komu í fyrri hálfleik en Blikar klúðruðu vítaspyrnu í þeim síðari. Sigurinn var þó aldrei í hættu hjá heimamönnum.

Þetta þýðir að FH á enn möguleika á Íslandsmeistaratitlinum fyrir lokaumferðina í deildinni sem fer fram á laugardaginn.

Þetta er þó enn í höndum Keflvíkinga sem verða meistarar með sigri á Fram um helgina. Ef liðin gera jafntefli og FH vinnur sinn leik á Fylki ræðst titilbaráttan á markatölu.

FH er nú með 23 mörk í plús en Keflavík 24 auk þess sem Keflvíkingar hafa skorað talsvert meira af mörkum í deildinni.

Atli Viðar Björnsson skoraði tvö marka FH í dag auk þess sem hann lagði upp eitt til viðbótar.

Fyrsta markið kom á sjöundu mínútu eftir hornspyrnu og klafs í teignum. Bæði lið sóttu nokkuð eftir það og fengu bæði góð færi til að skora næsta mark í leiknum.

En það voru heimamenn sem urðu fyrri til og Atli Guðnason var þar að verki eftir sendingu Atla Viðars. Atli stóð af sér varnarmenn Blika og náði að senda boltann laglega í fjærhornið.

Þriðja markið kom svo í blálok hálfleiksins, í þetta sinn eftir varnarmistök Blika. Tryggvi Guðmundsson kom boltanum á Atla Viðar sem lét fyrst verja frá sér einn gegn Vigni markverði en náði frákastinu og kom boltanum í netið.

Jóhann Berg Guðmundsson hefði getað minnkað muninn í síðari hálfleik með marki úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. En hann lét Gunnar Sigurðsson verja frá sér slaka spyrnu.

Eftir það var aldrei spurning um úrslit leiksins. FH-ingar sóttu meira en tókst þó ekki að bæta við fjórða markinu.

Fylgst var með gangi mála á Boltavaktinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×