Fótbolti

Gengur alltaf vel gegn Portúgal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Schweinsteiger fagnar hér sigrinum í kvöld.
Schweinsteiger fagnar hér sigrinum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Bastian Schweinsteiger var maður leiksins í kvöld er Þýskaland vann 3-2 sigur á Portúgal í fjórðungsúrslitum EM 2008.

Hann skoraði fyrsta mark leiksins í kvöld og lagði svo upp hin tvö. Hann sagði eftir leikinn í kvöld að hann væri í skýjunum með sigurinn.

„Það lítur út fyrir að mér gangi alltaf vel gegn Portúgal," sagði hann en hann skoraði tvö mörk í 3-1 sigri Þýskalands á Portúgal í leiknum um bronsið á HM í Þýskalandi fyrir tveimur árum.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að við unnum í kvöld en við erum með besta mannskapinn á mótinu að mínu mati. Við eigum nóg inni og það er allt hægt í fótbolta. Við sýndum í kvöld að við getum spilað vel og við berjumst til síðasta manns. Nú ætlum við að halda upp á sigurinn og svo einbeitum við okkur að næsta leik."

Joachim Löw landsliðsþjálfari var í banni í kvöld og varð að horfa á leikinn í heiðursstúkunni.

„Það var mjög erfitt. Maður er langt frá leiknum og ég varð mjög stressaður," sagði Löw eftir leikinn.

Hann sagði einnig að það hefði þurft að breyta til í liðsuppstillingu eftir að Þýskaland tapaði fyrir Króatíu og vann nauman 1-0 sigur á Þýskalandi.

„Það var ljóst eftir leikinn við Austurríki að við þurftum eitthvað að breyta til og við gerðum það. Við lögðum mikla áherslu á að skilja eftir mjög lítið pláss á miðjunni fyrir Deco og félaga," sagði Löw. Hann stillti liðinu upp samkvæmt 4-5-1 leikkerfinu en ekki 4-4-2 eins og hingað til.

„Við vorum skipulagðari í kvöld og höfðum miklar trú á því sem við vorum að gera. Það var mikil hreyfing án bolta og leikmenn voru mjög duglegir. Það er auðvitað ekki hægt að spila vel í öllum leikjum en við stigum upp á réttum tíma í dag."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×