Lífið

amiina vekur athygli víða

Hilli, lag íslensku hljómsveitarinnar amiinu og Lee Hazlewood heitins var valið lag mánaðarins í tímaritinu MixMag auk þess sem myndbandið við lagið var númer 2 á topp tíu lista tímaritsins Mojo yfir bestu myndböndin.

amiina er áberandi í tveimur af stærstu tónlistartímaritum heims í febrúar en þá var lag þeirra, Hilli, valið lag mánaðarins í MixMag og myndbandið við Hilla var númer 2 á topp tíu lista hins virta tónlistartímarits Mojo. Það er óhætt að segja að amiina hafi vakið athygli erlendis undanfarið.

Hún fékk til að mynda frábæra tónleikadóma í New York Times, fékk fimm stjörnu dóm fyrir tónleika sína í The Guardian ásamt heilsíðugrein fyrir jólin, BBC fór lofsamlegum orðum um breiðskífuna Kurr og hún var einnig valin ein sú besta á árinu í Mojo. Þá mun Íslandsvinurinn Yoko Ono hafa lýst því yfir að ef hún væri strönduð á eyðieyju væri Kurr önnur af tveimur plötum sem hún vildi hafa með sér. Hin væri Imagine.

Í sumar vann amiina lag með Lee Hazlewood, en það var hans síðasta verk en hann lést skömmu eftir að hann lauk upptökum. Lagið, Hilli - At the Top of the World, hefur vakið mikla athygli og víða hlotið frábæra dóma . Þá var amiina nýlega tilnefnd til menningarverðlauna DV árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.