Innlent

Enginn á ofurlaunum í Nýja Glitni

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Nýja Glitnis, segir að algjörlega ný launauppbygging sé í hinum nýja banka og þar sé enginn maður á ofurlaunum. Í samtali við fréttamann Markaðarins vildi hún hins vegar ekki gefa upp eigin laun.

Í viðtali sem birt var í Markaðnum á Stöð 2 í morgun var bent á að Birna hefði setið í framkvæmdastjórn gamla Glitnis. Aðspurð hvort hún bæri ekki ábyrgð á því hvernig farið hefði fyrir bankanum sagði Birna að hennar vinna hefði fyrst og fremst snúið að starfseminni á Íslandi. Hún væri ekki að skorast undan ábyrgð en hún hefði stjórnað innlendu sviði bankans.

Birna sagði enn fremur að ímynd íslensku bankanna hefði beðið skaða og stóra verkefnið fram undan væri að bæta hana. Það yrði meðal annars gert með því að fara í gengum efnahagsreikning hins nýja banka og vinna sem best úr honum. Þá þyrfti að leysa sem fyrst málefni peningasjóða bankanna.

Bankastjórinn var einnig spurður að því hvort til greina kæmi að sameina Glitni öðrum banka. Sagði Birna að það hefði ekki komið til tals enn þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×