Innlent

Sannkölluð sláturtíð hjá Hagkaup í Skeifunni

Gunnar Ingi Sigurðsson forstjóri Hagkaupa.
Gunnar Ingi Sigurðsson forstjóri Hagkaupa.

„Það hefur verið mjög mikið fjör í Skeifunni og mikil sláturtíð í gangi," segir Gunnar Ingi Sigurðsson forstjóri Hagkaupa aðspurður út í raðirnar í kjötborðið í Hagkaup í Skeifunni. Hann segir að erfitt sé að finna ódýrari máltíð en slátrið en keppurinn er seldur á 60-70 krónur. „Þú færð því ansi marga keppi fyrir fimm slátur eins og maður segir."

Gunnar segir að röðin í slátrið í dag hafi náð um hálfa búiðina og greinilegt að margir hafi tekið upp gamla siði að nýju. „Við finnum fyrir gríðarlegri aukningu frá því í fyrra."

Gunnar segir greinilegt að viðskiptavinir Hagkaupa séu að sækja í ódýrari vörur og því hafa þær verið gerðar sýnilegri í búðum. „Þú finnur heldur ekki ódýrari buxur en í Hagkaup," segir Gunnar sem býst við að fólk í fjármálageiranum sem alltaf er í skyrtum fari að leita til sín frekar en í merkjavörur. „Þú færð fjórar skyrtur á móti einni merkjavöru hjá okkur, það munar um það," segir Gunnar í léttum tón.

Hann hvetur einnig þá sem geta að taka jólin snemma í ár. „Það er alveg klárt að kaupmenn geta ekki boðið sama verð í desember og er í dag."

Aðspurður hvort búðirnar séu þá byrjaðar að bjóða upp á laufabrauð, piparkökur og gervijólatré hlær Gunnar. „Nei ég á nú bara við leikföng og annað í þeim dúr."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×