Innlent

Kynnti sameiginleg útboð og innkaup heilbrigðisstofnana

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, kynnti hugmyndir sínar um stóraukið samstarf á sviði útboða og sameiginlegra innkaupa heilbrigðisstofnana á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Í tilkynningu um málið segir að heilbrigðisráðherra kom á fót vinnuhópi fyrir stuttu sem fékk það hlutverk að setja fram tillögur og kanna ma. möguleika á öflugra samstarfi sjúkrahúsa við útboð, innkaup og pökkun lyfja.

Markmið ráðherra er að ná fram aukinni hagkvæmni í lyfjainnkaupum í heilbrigðisþjónustunni. Þær stofnanir sem fyrst og fremst er rætt um í þessu sambandi eru heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið, heilsugæslustöðvar um land allt og síðast en ekki síst öldrunar-og hjúkrunarstofnanir.

Landspítalinn býður sjálfur út lyf stærðar sinnar vegna, en spítalinn kaupir inn og býður út lyf, lækningatæki- og vörur fyrir rúmlega sjö milljarða króna á þessu ári.

Vinnuhópurinn sem ráðherra skipaði skilaði nýverið fyrstu hugmyndum sínum þar sem rætt er ma. um útboð og samninga vegna lyfjainnkaupa, samræmda lyfjalista, og þjónustu á sviði lyfjamála.

Innan heilbrigðisráðuneytisins hefur verið farið yfir tillögur vinnuhópsins. Til að hrinda hugmyndum hans í framkvæmd er lagt til að sett verði á laggirnar samstarfsnefnd heilbrigðisstofnana og fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Í henni sætu fulltrúar Landsambands sjúkrahúsa, Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Landspítala og Sjúkratrygginga Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×