Innlent

RÚV hættir við að hætta svæðissendingum

Ríkisútvarpið hefur ákveðið að draga til baka áform um að leggja af svæðisbundnar fréttasendingar frá Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.

Fram kemur í tilkynningu frá Páli Magnússyni, útvarpssttjóra, að síðustu daga hafi fjölmargir hollvinir svæðissendinganna hvatt til þess að ekki verði gripið til þessara sparnaðaraðgerða þrátt fyrir erfiða rekstrarstöðu Ríkisútvarpsins. Ljóst sé að hlustendur á landsbyggðinni telja svæðissendingarnar veigamikinn þátt í þjónustu RÚV.

Páll segir að þetta hafi endurspeglast í vaxandi auglýsingatekjum á svæðisstöðvunum að undanförnu þrátt fyrir almennan samdrátt í sölu auglýsinga. ..Fjölmargir viðskiptavinir á landsbyggðinni hafa haft samband síðustu daga og lýst yfir miklum vonbrigðum með að missa þann mikilvæga auglýsingamiðil sem svæðisstöðvarnar eru. Í framhaldinu hefur farið fram endurmat á tekjuáætlunum á svæðisstöðvunum og er niðurstaðan að væntanlegar tekjur muni duga til að halda útsendingunum áfram."

Nú hefur verið ákveðið að endurskipuleggja fréttaöflunina á landsbyggðinni til að tryggja að svæðissendingarnar geti haldið áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×