Innlent

Davíð fullyrti í júní að bankarnir myndu falla

Birkir Jón Jónsson sagði frá því á þingi í dag að Davíð Oddson hafi spáð bankahruni í júní.
Birkir Jón Jónsson sagði frá því á þingi í dag að Davíð Oddson hafi spáð bankahruni í júní.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri fullyrðir að hann hafi í júnímánuði sagt við leiðtoga ríkisstjórnarinnar að 0% líkur væru á því að bankarnir myndu lifa af aðsteðjandi erfiðleika. Frá þessu greindi Davíð á fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Birkir J. Jónsson spurði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, á þingfundi í dag, hvort hann hefði verið á fundum sem seðlabankastjóri segist hafa átt með ráðherrum úr ríkisstjórninni fyrr á þessu ári. Sagði Birkir að viðskiptaráðherrann hefði ekki verið mikið efnislega inni í erfiðleikum bankanna. Hann hefði skrifað mikla lofræðu, um stöðu íslensks efnahagslífs og stöðu bankanna, í Viðskiptablaðið í ágúst og á heimasíðu sína í september. Birkir spurði hvort ráðherrann hefði enga hugmynd haft um grafalvarlega stöðu bankanna í sumar.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra.
Björgvin svaraði því til að frá því að krónan féll um 30% í mars hafi öllum Íslendingum verið ljóst að miklir efnahagslegir erfiðleikar steðjuðu að. Hins vegar hefði engum verið ljóst að það yrði sjálfkrafa til þess að bankarnir myndu falla.

Björgvin benti á að stöðugleikaskýrslu Seðlabankans frá því í maí, þar sem Seðlabankinn hefði kynnt formlega sína afstöðu til fjármálalegs stöðugleika. Þar hefði komið fram staða íslensku bankanna væri almennt góð. Björgvin sagðist ekki vita hvað hefði farið fram á fundum seðlabankastjóra með öðrum ráðherrum. Hann hefði hins vegar ekkert hitt seðlabankastjóra á tímabilinu nóvember 2007 þar til í september 2008, á margfrægum fundi þar sem Davíð lagði til að mynduð yrði þjóðstjórn. Björgvin sagðist ekki hafa hugmynd um af hverju seðlabankastjóri hefði ekki kynnt sér stöðuna betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×