Innlent

Valgerður hættir sem formaður í janúar

Valgerður Sverrisdóttir formaður Framsóknarflokksins ætlar ekki að sækjast eftir áframhaldandi setu á formannsstóli og mun hætta á næsta flokksþingi sem haldið verður í janúar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Valgerði á heimasíðu flokksins.

Þar segist hún hafa um ríflega tveggja áratuga skeið starfað í stjórnmálum og helgað öllum sínum kröftum í að vinna að framgangi góðra mála. Hún hafi hins vegar einnig lýst þeirri skoðun sinni að þörf sé á endurnýjun í íslenskum stjórnmálum. Þá skoðun ítrekar hún með þessari yfirlýsingu.

„Ég vil fyrir mitt leyti fylgja eftir þessari sannfæringu minni um nauðsynlega endurnýjun. Því hef ég ákveðið að sitja ekki lengur sem formaður Framsóknarflokksins en til næsta flokksþings framsóknarmanna sem haldið verður í janúarmánuði næstkomandi. Þar verður því kjörinn nýr formaður Framsóknarflokksins. Ég mun hins vegar áfram sitja á Alþingi og vil gera mitt til að vinna þjóðinni og flokknum allt það sem ég tel að til heilla horfi," segir Valgerður.

Valgerður sagðist í samtali við Vísi ekki vera að hætta í stjórnmálum. Hún gerir ekki ráð fyrir öðru en að sitja á þingi út kjörtímabilið.

Valgerður vildi að svo stöddu ekki gefa upp hvernig hún styður sem næsta formann flokksins.




Tengdar fréttir

Höskuldur íhugar alvarlega formannsframboð

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, íhugar alvarlega að gefa kost á sér sem formaður Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi sem haldið verður í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×