Innlent

Höskuldur íhugar alvarlega formannsframboð

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, íhugar alvarlega að gefa kost á sér sem formaður Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi sem haldið verður í janúar.

Höskuldur segir að flokksmenn hvaðanæva af landinu hafi haft samband við sig og hvatt hann til að gefa kost á sér. ,,Ég er að velta þessu alvarlega fyrir mér," segir Höskuldur og bætir við að hann muni fljótlega gefa út yfirlýsingu um hvað hann hyggst gera.

Staðan hefur breyst hratt

Höskuldur telur að enginn hafi getað séð fyrir þá stöðu sem upp er komin innan Framsóknarflokksins og í íslensku þjóðfélagi. ,,Það er vindasamt og staðan hefur breyst hratt og maður þarf að íhuga sína stöðu og sína framtíð. Ég treysti mér til allra góðra verka."

Valgerður Sverrisdóttir er starfandi formaður flokksins og Höskuldur segist beri mikla virðingu fyrir henni. Hann vill að Valgerður gefi fljótlega upp hvort hún ætli að gefa kost á sér. Flokksmenn þurfi ráðrúm til að gera upp við sig hvern þeir vilja að veljist til forystu í flokknum.

Valgerður er starfandi formaður

Valgerður tók tímabundið við sem formaður þegar Guðni Ágústsson sagði af sér formennsku 17. nóvember. Þá sagði hún óvíst hvort hún myndi sækjast eftir formannsembættinu.

Flokksþing Framsóknarflokksins verður haldið 16. til 18. janúar í Vodafonehöllinni við Hlíðarenda. Enn sem komið er hefur Birkir Jón Jónsson einn líst yfir framboði en hann gefur kost á sér sem næsti varaformaður flokksins.

Höskuldur er 35 ára og er einn af þremur þingmönnum flokksins úr Norðvesturkjödæmi. Hann starfaði sem lögmaður áður en var kjörin á þing í maí 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×