Liza Minnelli kom áhorfendum New York tískuvikunnar á óvart í gær þegar hún söng einkennislag sitt „New York, New York" á tískusýningarpalli rauðkjólasýningar Heart Truth. Sýningunni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hjartasjúkdóma hjá konum. Þar koma fram söngkonur, leikkonur og fyrirsætur í rauðum kjólum þekktra tískuhönnuða.
Óskarsverðlaunahafinn var í rauðum glitrandi Halston topp og svörtum buxum. Hún breytti pallinum í kabarettsýningu og fékk að launum dúndrandi lófaklapp áhorfenda sem risu úr sætum sínum.
Á sýningunni er glamúr tískunnar notaður til að undirstrika áhættuþætti eins og háan blóðþrýsting, hátt kólesterolmagn og skort á líkamsþjálfun en það eru helstu áhættuþættir hjartasjúkdóma.
Leikkona Ljótu Betty þáttanna Ana Ortiz tók meðal annarra þátt í sýningunni. Hún sagðist hafa verið stressuð en himinlifandi að vera með.
„Ég áttaði mig ekki á að hjartasjúkdómar væru jafn útbreiddir meðal kvenna af latneskum uppruna og raun ber vitni, en ef það hjálpar að taka þátt þá er ég glöð," sagði hún.