Innlent

Um 2500 manns sagt upp í fjöldauppsögnum í síðasta mánuði

Um 2500 manns var sagt upp í hópuppsögnum í nýliðnum októbermánuði samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.

Að sögn Gissurar Péturssonar, forstjórar stofnunarinnar, komu flestar uppsagnanna í síðustu viku en eftir á að greina nákvæmlega hvernig þær skiptast eftir greinum. Þó sé vitað að stærstur hluti uppsagnanna hafi verið í byggingargeiranum og tengdri starfsemi en inni í tölunum séu einnig uppsagnir hjá bönkunum og hjá framleiðslufyrirtækjum.

Gissur bendir á að við þennan fjölda bætist uppsagnir í minni fyrirtækjum og þær sem ekki falla undir lög um hópuppsagnir. Þar gætu verið ferðinni einhver hundruð til viðbótar sem sagt var upp. Fjöldi þeirra sjáist ekki fyrr en uppsagnarfresturinn er liðinn og fólk sækist eftir atvinnuleysisbótum.

Hann bendir á að flestir þeir sem sagt var upp fyrir mánaðamótin séu með á bilinu eins til þriggja mánaða uppsagnarfrest og því séu þessir 2500 einstaklingar ekki komnir inn á atvinnuleysisskrá. Það geri þeir að líkindum á tímabilinu frá 1. desember til 1. febrúar en þess má geta að samkvæmt heimasíðu Vinnumálastofnunar eru um 4.200 manns nú án vinnu. Því má búast við að tala atvinnulausra verði að minnsta kosti sex þúsund manns í upphafi næsta árs.

Um framhaldið segir Gissur að ljóst sé atvinnulausum muni fjölga enn frekar. Hann bendir á að atvinnuleysi hér hafi verið lítið sem ekkert þar til fyrir nokkru en aukningin í fjölda atvinnulausra hafi verið stuðandi að undanförnu og hún sé mjög hröð. Vonandi taki þetta fljótt enda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×