Enski boltinn

Ronaldo sá besti í heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bernd Schuster, þjálfari Real Madrid.
Bernd Schuster, þjálfari Real Madrid. Nordic Photos / Getty Images

Bernd Schuster, knattspyrnustjóri Real Madrid, segir að Cristiano Ronaldo sé besti knattspyrnumaður heimsins í dag.

Ronaldo skoraði sitt 36. mark á tímabilinu er hann skoraði annað marka Manchester United í 2-0 sigri á Roma í Meistaradeild Evrópu í gær.

Schuster segir að Ronaldo sé nú betri en Brasilíumaðurinn Kaka sem var kjörinn knattspyrnumaður ársins af FIFA og France Football í fyrra.

„Ronaldo hefur þegar farið fram úr Kaka sem hefur verið í lægð undanfarið," sagði Schuster. „Sem stendur er Cristiano Ronaldo besti knattspyrnumaður heimsins."

Ronaldo var í þriðja sæti á eftir Lionel Messi í kjöri FIFA á knattspyrnumanni ársins.

Schuster bætti við að hann hefði vitanlega ekkert á móti því að fá Ronaldo til liðs við Real Madrid.

„Hann er skærasta stjarna Old Trafford og þar til United vinnur Meistaradeildina og annan enskan meistaratitil munu þeir ekki sleppa honum," sagði Schuster. „En ég gæti vel trúað því að hann komi til með að spila með Real Madrid eftir nokkur ár."

Schuster gaf einnig í skyn að Didier Drogba gæti verið á leið til félagsins. „Drogba og Luis Fabiano hjá Sevilla eru mjög góðir leikmenn. Madrid leggur metnað sinn í að fá þá bestu til sín."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×