Innlent

Stúdentar æfir yfir niðurskurði

Stúdentaráð Háskóla Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við þá tillögu ríkisstjórnar að skerða framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Háskóla Íslands.

Ráðið segir ríkisstjórn hundsa þá staðreynd að þegar kreppir að sæki fleiri sér menntun í háskóla, og sé hlutaverk Lánasjóðsins brýnna en ella.

„Nýjustu tölur sýna að sexföldun er í skráningu í grunn- og framhaldsnám HÍ á vorönn miðað við í fyrra. Af hverju gera forsendur fjárlaga ráð fyrir aðeins 5% fjölgun námsmanna á lánum þegar fyrir liggur að þeim muni fjölga um 20 eða jafnvel 30 prósent þegar aukinn fjöldi hefur nám, atvinnutækifæri gufa upp og baklönd verða ótryggari fjárhagslega? Af hverju hundsar ríkisstjórnin sína eigin stefnumörkun um eflingu menntunarstigs þjóðarinnar og þá tölulegu staðreynd að menntunarstig Íslendinga rétt hangir í meðallagi miðað við nágrannaþjóðir okkar?" segir í ályktun sem ráðið sendi frá sér í dag.

Einnig gerir Stúdentaráð athugasemd við niðurskurð við Háskóla Íslands sem nemur fjárhæð rannsóknarsamnings sem menntamálaráðherra hefur gert við skólann. Ráðið segir sterkasta andsvar við áföllum í efnahag- og atvinnulífi að efla menntun, rannsóknir og nýsköpun eins og fulltrúar stúdenta hafi ítrekað bent á undanfarið.

„Fyrir síðustu alþingiskosningar lofuðu allir stjórnmálaflokkar að efla lánasjóðskerfið. Vissulega standa Íslendingar fyrir breyttum aðstæðum og rúmlega 20.000 stúdentar landsins eru engin undantekning. Það er þó makalaust að þegar stúdenta- og námsmannahreyfingar landsins hafa æ ofan í æ talað fyrir nauðsyn þess að fjármagn til LÍN verði ekki skert og hlúið verði almennilega að háskólum verði niðurstaðan eins og raun ber vitni - verulegur niðurskurður sem og váleg skilaboð ríkisstjórnar til stúdenta. Stúdentaráð Háskóla Íslands fer fram á að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína. " segir ennfremur í ályktuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×