Innlent

Pólverji á Íslandi eftirlýstur fyrir morð í Póllandi

Pólskur karlmaður sem stundað hefur byggingavinnu hér á landi undanfarna mánuði er eftirlýstur af pólsku lögreglunni fyrir hrottalegt morð í heimalandi sínu. Íslensk lögregluyfirvöld bíða eftir handtökubeiðni frá Póllandi.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Þar segir að maðurinn sé grunaður um morð í Wloclawek í Póllandi og var handtökutilskipun gefin út á hann á síðasta ári. Hann var þá í tengslum við glæpahóp sem meðal annars fékkst við fíkniefnasölu og peningaþvætti. Grunar lögreglu að hópurinn sé að færa út kvíarnar, meðal annars með því að selja pólskar konur í vændisþjónustu í Þýskalandi. Maðurinn hélt til Íslands eftir að handtökutilskipunin var gefin út.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu geta íslensk lögregluyfirvöld ekkert aðhafst þar til pólsk lögregluyfirvöld hafa sent eftirlýsingu eða handtökubeiðni á manninn. Hafa lögregluyfirvöld á Íslandi og í Póllandi verið í sambandi vegna málsins.

Að sögn lögreglu er vitað hver maðurinn er, en ekki fengust svör við því hvort hann sé undir sérstöku eftirliti.

Pólska dagblaðið Gazeta greinir frá því að maðurinn og félagar hans stundi þá iðju að taka hús á löndum sínum búsettum hér á landi og krefji þá um peninga með hótunum um ofbeldi. Lögregla segist ekki hafa áþreifanlegar sannanir fyrir að þessi iðja sé stunduð hér á landi, en hafi þó heyrt sögusagnir þess efnis. Maðurinn mun ekki tengjast árásarhópnum sem réðist á hóp Pólverja í Keilufelli í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×