Innlent

Steinríki skilað til Noregs

Leiguþyrlu Landhelgisgæslunnar LN-OBX, eða Steinríki eins og hún var einnig kölluð, verður skilað í dag. Þyrlan fór til Noregs á fimmta tímanum. Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar segir að Steinríkur fari tímabundið til Noregs í verkefni á vegum eigenda hennar auk þess sem viðhaldi við hana verði sinnt. Hún komi líklega aftur hingað til lands í sumar.

Þangað til munu þyrlur gæslunnar TF-LÍF, TF-GNÁ og TF-EIR sinna þeim verkefnum sem upp koma. Georg segir að viðhaldskerfi geri ráð fyrir að þrjár þyrlur séu í gangi á hverjum tíma.

Hann segir leigumarkað fyrir björgunarþyrlur lítinn og erfiðan. Þó eigi hann von á að á næsta ári losni vél sem sé betri en Steinríkur, en hún hafi verið einna síst af þyrlunum fjórum sem voru í gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×