Innlent

Geir: Icesave-hneykslið má aldrei koma fyrir aftur

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að koma verði í veg fyrir að Icesave-hneykslið, eins og hann orðar það, geti nokkurn tíma komið upp aftur. Þetta sagði ráðherrann í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri - grænna, benti á í fyrirspurn sinni að sorglegt væri að koma hefði mátt í veg fyrir hrun fjármálakerfisins og vaxandi erfiðleika efnahagskerfisins. Ef löggjafinn hefði reist nauðsynlega múra fyrir almenning þá hefði Icesave-hneykslið ekki orðið að veruleika. Vísaði hann þar til deilna íslenskra og breskra stjórnvalda um ábyrgð á innistæðum á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi.

Við stæðum nú frammi fyrir því að endurreisa fjármálakerfið og þá skipti máli hvernig lagaumhverfið væri. Spurði hann forsætisráðherra hvort hann væri reiðubúinn að efna til pólitísks samstarfs um nýtt lagaumhverfi fyrir íslenska fjármálakerfið.

 

Geir H. Haarde svaraði því til að lagaumgjörðim hér á landi byggðist á samevrópskum reglum. Hún hefði reynst gölluð eins og við og fleiri hefðu komist að og Íslendingar ættu að taka forystu um að breyta því sem sneri að okkur.

Sagði hann enn fremur að tryggja yrði að það sem þingmaðurinn hefði kallað réttilega Icesave-hneykslið kæmi aldrei upp aftur. Sagði hann enn fremur að eitt og annað úr regluverkinu hefði ekki reynst vel og hefðu Íslendingar brennt sig illa á krosseignarhaldi. Koma þyrfti í veg fyrir að regluverkið yrði misnotað í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×