Fótbolti

Tyrkir sendu Tékka heim með dramatískum sigri

Elvar Geir Magnússon skrifar
Volkan Demirel, markvörður Tyrkja, fagnar hér sigurmarki sinna manna. Stuttu síðar fékk hann rauða spjaldið.
Volkan Demirel, markvörður Tyrkja, fagnar hér sigurmarki sinna manna. Stuttu síðar fékk hann rauða spjaldið.

Tékkland og Tyrkland mættust í kvöld í lokaumferð A-riðils Evrópumótsins. Beðið var með mikilli eftirvæntingu eftir þessum leik enda hreinn úrslitaleikur um hvort liðið myndi fylgja Portúgal upp úr riðlinum.

Leikurinn var mögnuð skemmtun og dramatíkin var allsráðandi. Fáir bjuggust við þeirri spennu sem kom í lokin eftir að Tékkar komust í 2-0 með mörkum Jan Köller og Jaroslav Plasil.

En Tyrkir gáfust ekki upp og stundarfjórðungi fyrir leikslok náði Arda Turan að minnka muninn. Eftir þetta sóttu Tyrkirnir stíft og jöfnunarmarkið lá í loftinu. Það kom síðan á 87. mínútu eftir herfileg mistök hjá Petr Cech, markverði Tékka. Cech missti boltann og Nihat Kahveci skoraði.

Reiknuðu þá flestir með að vítaspyrnukeppni þyrfti til að ráða úrslitum. En Nihat Kahveci var ekki hættur og skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti, aðeins tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið. Tékkneskir áhorfendur voru orðlausir í stúkunni.

Volkan Demirel, markvörður Tyrkja, fékk rauða spjaldið fyrir að hrinda Jan Köller í uppbótartíma og þar sem Tyrkland hafði klárað skiptingar sínar fór útispilari í markið. Það reyndi þó ekkert á hann þessar nokkru sekúndur sem voru eftir og Tyrkir fögnuðu 3-2 sigri í hreint ótrúlegum fótboltaleik.

Tékkar eru því úr leik en Tyrkir munu fylgja Portúgal úr riðlinum. Portúgal mætti Sviss í dag í leik sem skipti engu máli. Óvænt úrslit urðu þar sem heimamenn í Sviss unnu 2-0 sigur, Hakan Yakin skoraði bæði mörkin fyrir Sviss sem fellur því úr keppni með sæmd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×