Íslenski boltinn

Logi: Allir skiluðu varnarvinnunni

Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson.

Logi Ólafsson, þjálfari KR, var ánægður með sína menn eftir 3-0 sigurinn gegn Fylki.

Sérstaklega var Logi sáttur með varnarvinnu alls liðsins en hún hefur ekki verið nægilega góð það sem af er tímabili.

„Við erum mjög ánægðir með það þegar liðið kemur svona sterkt til leiksins. Menn voru að verjast frá fremsta manni til aftasta þá vitum við að hæfileikar liðsins nýtast sem best. Það er betri útgangspunktur í sóknarleiknum að vita að markið er hreint," sagði Logi.

Hann gat ekki gefið skýringar á dýfunni sem liðið tók í Keflavík um síðustu helgi. „Við höfum ekki sótt gull í greipar Keflavíkur á undanförnum árum. En oft á tíðum er þetta bara spurning um hugarfar. Menn voru einfaldlega betur stemmdir í dag," sagði Logi.

„Ég er mjög ánægður með vinnsluna í öllu liðinu í dag. Við sköpuðum okkur fullt af færum og skoruðum þrjú mörk."

Atli Jóhannsson hefur glímt við erfið meiðsli síðan hann gekk til liðs við KR. Hann var í byrjunarliðinu í dag en eftir að hafa fengið höfuðhögg þurfti hann að fara af velli á 20. mínútu. „Þetta er mikil synd fyrir hann. Ég bjóst ekki við að hann yrði tilbúinn fyrr en í júlí en með mikilli elju og aukaæfingum var hann kominn í byrjunarliðið. Ég veit ekki hvaða draugar þetta eru á bakinu á honum," sagði Logi.

Gunnlaugur Jónsson var ekki í leikmannahópi KR í dag vegna meiðsla á hné en hann fer í segulómskoðun á morgun og þá kemur framhaldið betur í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×