Innlent

Fangar hvetja alþingi til að sýna gott fordæmi

sev skrifar
Fangar vilja að þingheimur sýni fordæmi og lækki laun sín.
Fangar vilja að þingheimur sýni fordæmi og lækki laun sín.

Fangar fylgdust eins og þjóðin öll með setningu alþingis í gær. Stjórnmálamenn ræddu þar um þann vanda sem að þjóðinni steðjar og mikilvægi þess að allir legðust á eitt til að leysa vandann. Á heimasíðu Afstöðu, félags fanga birtist í dag tillaga til lausnar á vandanum, að alþingi stigi fram fyrir skjöldu og sýni gott fordæmi, öðrum til hvatningar.

„Við fangar leggjum því til að alþingismenn breyti eftirlaunarétti sínum til jafns við aðra, lækki laun sín niður að því marki sem dugir til framfærslu og hefjist svo handa við hið sama innan ríkisstofnana," segir í færslunni.

„Við erum með vel klæddan og launaháan viðskiptaráðherra á áhorfendapöllunum, óvinsælan en launaháan fjármálaráðherra, seðlabankastjóra sem hefur hærri laun en forsetinn og svo mætti lengi telja."

Fangarnir gera sér þó ekki neinar vonir um að þetta bjargi öllu. „Við fangar vitum vel, eins og aðrir, að þessar ráðstafanir eru dropi í hafi en þær eru líka tár á hvarmi, tákn um að leiðtogarnir taki málið nærri sér," segir í færslunni.

„Með þessu móti sýndu ráðamenn vilja sinn í verki, raunverulegann vilja til að taka þátt með öllum hinum. Það er voðalega auðvelt að standa snyrtilegur í pontu, í dýrum dröktum eða jakkafötum, segja það sama og næsti maður á undan og ætla landsmönnum öllum að standa saman án þess að leggja nokkuð af mörkum sjálfur annað en hjómkenndan orðaflaum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×