Innlent

Grunur um að tugir bíla séu stolnir

Tugir bíla sem fluttir voru hingað til lands frá Bandaríkjunum gætu verið ólöglega fengnir. Tollayfirvöld ytra lögðu hald á ellefu bíla fyrir skömmu sem voru á leið hingað til lands sem talið er að hafi verið stolið. Í það minnsta eitt íslenskt fyrirtæki og einn Íslendingur er viðriðin málið.

Þá segja heimildir fréttastofu að í það minnsta sex bílar til viðbótar hafi verið stöðvaðir á leið sinni hingað. Bandaríska tollgæslan telur að bílunum hafi verið stolið af glæpahring þar ytra, þar sem þeim hafi verið breytt. Þeir hafi svo verið seldir úr landi. Samkvæmt heimildum fréttastofu þá hefur málið verið til rannsóknar í þónokkurn tíma í nánu samstarfi við tollgæsluna hér á landi.

Á heimasíðu IB ehf. á Selfossi, sem er virkur innflytjandi á bílum frá Bandaríkjunum, er haft eftir bandarísku tollgæslunni að glæpahringurinn hafi breytt verksmiðjunúmerum á bílunum með fölsunum og tekist þannig að fá bílana skráða til útflutnings.

Í það minnsta eitt íslenskt fyrirtæki er talið hafa keypt bíla af glæpahringnum og selt hér á landi. Þá er talið að í það minnsta einn Íslendingur sé viðriðin málin en samkvæmt heimildum fréttastofu mun hann hafa verið milligöngumaður um kaupin á bílunum. Íslenska fyrirtækið sem um ræðir hefur flutt inn bíla frá Bandaríkjum um nokkurt skeið. Í samtali við fréttastofu í dag sagðist eigandi fyrirtækisins ekki vita hvers vegna bílarnir væri kyrrsettir og að engar upplýsingar hefðu borist sér um málið. Hann gæti því lítið sagt um málið að svo stöddu.

Tollayfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú hvort fleiri stolnir bílar hafi verið seldir úr landi, meðal annars hingað til lands. Grunur leikur á að um tugi bíla gæti verið að ræða. Sé það svo gætu íslenskir kaupendur bílanna tapað þeim bótalaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×