Innlent

Atvinnuleysið 2,3 prósent á fyrsta ársfjórðungi

Atvinnuleysi á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 2,3 prósentum samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands. Þannig mældist það 2,5 prósent hjá körlum og 2,2 prósent hjá konum.

Þegar litið er til aldurs var atvinnuleysið mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 6,5 prósent. Atvinnulausir teljast þeir sem ekki hafa atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið vinnu sem hefst innan 3 mánaða.

Alls voru 174 þúsund manns starfandi á íslenskum vinnumarkaði á fyrsta ársfjórðungi og hafði fjölgað um rúmlega þúsund frá sama tímabili ári áður. Þetta jafngildi 81 prósents atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttakan reyndist 82 prósent á sama tímabili í fyrra.

Þá leiða tölur Hagstofunnar í ljós að landsmenn unnu að meðaltali tæplega 41 klukkustund á viku á fyrsta ársfjórðungi. Karlar unnu rúmar 45 klukkustundir en konur 35. Þetta eru svipaðar tölur og í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×