Tinna Helgadóttir gerði sér lítið fyrir og vann andstæðing sinn í fyrstu umferð keppni í einliðaleik kvenna á Evrópumótinu í badminton í morgun.
Tinna vann sigur á Lucia Tavera frá Spáni, 2-1. Tinna vann fyrstu lotuna, 21-12 en tapaði svo þeirri næstu naumlega, 21-18. Tinna vann hins vegar oddalotuna, 21-12.
Tinna er í 262. sæti styrkleikalista Alþjóða badmintonsambandsins í einliðaleik kvenna en Tavera er í 81. sæti á sama lista. Sigur Tinnu er því einkar glæsilegur.
Tinna mætir annað hvort Kristina Ludikova frá Tékklandi eða Jie Yao frá Hollandi í næstu umferð. Ludikova er í 69. sæti heimslistans en Yao er í nítjánda sæti listans og með sterkustu badmintonkonum álfunnar.
Katrín Atladóttir keppti einnig í einliðaleik kvenna í morgun og tapaði fyrir Jeanine Cicognini frá Sviss í tveimur lotum, 21-14 og 21-13.