Innlent

Nesjavallavirkjun í fulla starfsemi eftir bilun háspennustrengs

MYND/GVA

Viðgerð á háspennustrengnum frá Nesjavöllum sem brann yfir fyrir um tíu dögum er lokið og því er Nesjavallavirkjun komin í fulla starfsemi.

Vísir greindi frá því fyrir viku að strengurinn hefði brunnið yfir um þarsíðustu helgi og var talið að högg hefði komið á hann í kjölfar þess að annar háspennustrengur sem liggur í Elliðavoginum fór í sundur og olli rafmagnsleyis í austurhluta höfuðborgarsvæðisins.

Engin framleiðsla var á Nesjavöllum á meðan viðgerð stóð yfir en sérfræðingar frá útlöndum voru sóttir til þess að aðstoða við viðgerðina. Bilunin varð til þess að Orkuveita Reykjavíkur þurfti að skerða orkuafhendingu til Norðuráls á Grundartanga.

Viðgerðinni á strengnum lauk á mánudaginn var að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki liggur fyrir hvert framleiðslutap Orkuveitunnar er vegna þessa. Strengurinn er í eigu Landsnets og að sögn Aðalsteins Guðmannssonar, yfirmanns tæknimála í netrekstri hjá félaginu, liggur kostnaðurinn við viðgerðina ekki endanlega fyrir en hann hleypur á nokkrum milljónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×