Innlent

Fyrrverandi sveitarstjóri ákærður fyrir stórfelldan fjárdrátt

Brynjólfur Árnason, fyrrverandi sveitarstjóri ´Grímseyjarhrepps.
Brynjólfur Árnason, fyrrverandi sveitarstjóri ´Grímseyjarhrepps.

Brynjólfur Árnason, fyrrverandi sveitarstjóri Grímseyjarhrepps, hefur verið ákærður fyrir fjárdrátt í opinberu starfi sem nemur á bilinu 15-20 milljónum króna á þriggja ára tímabili. Ákæra á hendur honum verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra á morgun.

Eins og fram hefur komið á Vísi vaknaði grunur um brot hans þegar hann var dæmdur í héraðsdómi í nóvember í fyrra fyrir að hafa stolið nærri 13 þúsund lítrum af olíu til húshitunar. Fyrir það hlaut hann þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Fljótlega eftir það var farið að skoða bókhald Grímseyjarhrepps og þá vaknaði grunur um stórfelld fjársvik Brynjólfs. Honum var sagt upp störfum sem sveitarstjóra og málið í framhaldi kært til lögreglu. Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur síðan haft málið til rannsóknar og hefur nú gefið út ákæru.

Samkvæmt heimildum Vísis nemur fjárdráttur sveitarstjórans úr sjóðum sveitarfélagsins á bilinu 15-20 milljónum króna og stóðu hin meintu brot yfir á árunum 2005-2007. Samkvæmt lögum liggur allt að sex ára fangelsi við brotum sem þessum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×