Innlent

Össur: Samfylking hefur lagt þunga áherslu á aðstoð frá IMF

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir að Samfylkingin hafi lagt á það þunga áherslu að ríkisstjórnin leiti aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að bregðast við þeim áföllum sem riðið hafa yfir íslenskt efnahagslíf. Þetta kom fram á fundi sem Samfylkingin hélt á Grand hóteli í dag. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mætti á fundinn en hún hefur verið fjarverandi vegna erfiðra veikinda. Flokksmenn tóku á móti formanni sínum með lófataki og buðu hana velkomna til starfa á ný.

Í ræðu sinni sagði Ingibjörg að staðan væri mun alvarlegri en talið hafi verið í fyrstu. Erfiður vetur væri framundan og að næstu misseri muni taka á. Þá þakkaði Ingibjörg samráðherrum sínum Össuri, Björgvini G. viðskiptaráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra fyrir vel unnin störf undanfarna daga. Sérstaklega hældi hún Björgvini og sagði sér til efs að áður hefðu jafn þungar byrðar verið lagðar á jafn ungan ráðherra.

Össur sagði flokkinn hafa lagt þunga áherslu á að óskað verði eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann sagði einnig að starfsmenn utanríkisráðuneytisins, sem hefðu tengsl víða um heim, hefðu fullvissað sig um að aðrar þjóðir muni „renna í slóðina" og fara að fordæmi Íslendinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×