Enski boltinn

Óttast ekki að verða rekinn

NordicPhotos/GettyImages

Juande Ramos, knattspyrnustjóri Tottenham, segist ekki óttast að verða rekinn frá félaginu þó lið hans sé í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar eftir verstu byrjun sína í hálfa öld.

Tottenham tapaði 2-0 fyrir Portsmouth um helgina og hefur ekki unnið leik. Tvö stig og botnsætið eru niðurstaðan eftir sex umferðir hjá liðinu sem átti að keppast um að komast í Meistaradeildina í vetur.

Ramos var spurður hvort hann nyti stuðnings stjórnarinnar eftir þessa hræðilegu byrjun.

"Tvímælalaust, við ræðum saman reglulega og allir gera sér grein fyrir stöðunni. Það er hinsvegar stjórnarinnar að ákveða hvort ég held áfram, en ég tek það ekki nærri mér að stuðningsmennirnir séu ósáttir. Það eina sem ég tek nærri mér er að við skulum ekki vera að vinna leiki," sagði Ramos.

Stuðningsmenn Tottenham sungu fullum hálsi "þú veist ekki hvað þú ert að gera," þegar liðið tapaði fyrir Portsmouth í gær og eru orðnir fullsaddir á gangi mála.

Fjölmiðlar á Englandi velta því fyrir sér hvort Ramos gæti þurft að taka pokann sinn ef Tottenham fellur úr leik gegn Wisla Krakow í Evrópukeppninni á fimmtudaginn, en Martin Jol, forveri Ramos, var einmitt rekinn undir svipuðum kringumstæðum fyrir ári síðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×