Innlent

Ný sjálfstæðisbarátta óhjákvæmileg

MYND/Pjetur

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra segir að ný sjálfstæðisbarátta sé óhjákvæmileg til þess að endurheimta fjárhagslegan styrk þjóðarinnar. Þetta kom fram í ræðu hans á hátíðarmálþingi lagadeildar Háskóla Íslands í dag. „Í þeirri baráttu mun örugglega reyna mjög á lög og lögfræðinga, eins og jafnan áður, þegar Íslendingar hafa leitast við að treysta stöðu sína í samfélagi þjóðanna."

Björn fór yfir aðgerðir Breta að undanförnu gagnvart Íslendingum og sagði að við allar venjulegar aðstæður væri litið á alþjóðasamninga sem skjól smáríkja gagnvart stærri ríkjum. „Atburðarás síðustu daga vekur spurningar um, hvort nú sé jafnvel ástæða til að draga slíka vörn í efa. Bresk stjórnvöld beita hrammi hryðjuverkalaga gegn íslenskum fyrirtækjum. Hollendingar hóta með aðgerðum á vettangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fallist Íslendingar ekki á kröfur þeirra," sagði Björn.

Björn benti á að nú skipti öllu að lög og reglur séu hafðar sem leiðarljós, þegar hafist sé handa við að vinna sig út úr rústunum. Til réttarvörslukerfisins séu ætíð gerðar miklar kröfur en aldrei meiri en þegar vegið sé að innviðum þjóðfélaga, eins og hér hafi gerst.

Í ávarpinu fjallaði Björn einnig um það hvernig staðið skuli að rannsókn á hugsanlegum kærum um meinta refsiverða verknaði tengda falli bankanna. Hann vék einnig orðum sínum að Baugi og sagði markvisst hafa verið reynt að grafa undan trausti í garð þeirra sem unnið hefðu ötullega að rannsókn og ákærum vegna efnahagsbrota.

„Til þessarar hörðu atlögu var stofnað vegna rannsókna og ákæru gegn einu af viðskiptaveldum landsins, sem berst nú fyrir lífi sínu. Ákæruvald og lögregla hafa að sjálfsögðu staðið þessa hrynu af sér. Þrátt fyrir það má ætla, að núverandi stofnanir á sviði rannsóknar og saksóknar og jafnvel dómstólar eigi fullt í fangi með mál, sem kunna að spretta af falli bankanna.

Fyrir hafa þessar stofnanir næg verkefni á sinni könnu, auk þess ráða þær tæplega hvorki yfir nægum mannafla né nægilegri sérþekkingu á þeim atriðum, sem hér koma til álita. Rannsókn flókinna efnahagsbrota, saksókn og dómsmeðferð er tímafrek og kostnaðarsöm í samanburði við önnur sakamál. Alrangt er hins vegar, að slíkar rannsóknir auki aðeins kostnað ríkissjóðs. Uppljóstrun skatta- og efnahagsbrota leiðir oft til þess, að skatttekjur ríkissjóðs aukast mikið, auk þess sem ólöglegur ávinningur efnahagsbrota getur sætt upptöku.

Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis," sagði Björn en fremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×