Innlent

Líkamsárásir 29% fleiri en í mars 2007

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra sýnir 29% fjölgun líkamsárása.
Afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra sýnir 29% fjölgun líkamsárása.

Tilkynningum til lögreglu um líkamsmeiðingar hefur fjölgað um 29% ef borin er saman afbrotatölfræði marsmánaða áranna 2007 og 2008. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu um afbrot marsmánaðar á landsvísu sem ríkislögreglustjóri gefur út.

Tilkynningar um líkamsmeiðingar í mars 2007 voru 98 en í nýafstöðnum marsmánuði voru þær 126. Tilkynntum þjófnuðum fjölgaði úr 266 í 306 og nytjastuldum úr 17 í 33 sem er nánast 100% aukning. Ölvunarakstursbrotum fækkaði hins vegar um rúm 9% og innbrotum um 21%, úr 192 tilfellum í 151.

Umtalsvert færri fíkniefnabrot voru skráð í mars 2008 miðað við marsmánuði tveggja síðustu ára, 139 samanborið við 168 í fyrra og 156 árið þar áður. Hraðakstursbrotum fjölgaði úr 2.408 í 2.797 og má ætla að þáttur í þeirri fjölgun sé uppsetning nýrra stafrænna myndavéla í Hvalfjarðarsveit og nú síðast í Fáskrúðsfjarðargöngum en þar voru slíkar myndavélar settar upp í janúar. Hraðakstursbrot mynduð með slíkum vélum fyrstu þrjá mánuði ársins voru 1.726 en hraðakstursbrot í heildina sama tímabil voru 6.371. Nema mynduðu brotin því rúmum fjórðungi allra hraðakstursbrota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×