Innlent

Vill að ríkisstjórnin tileinki næsta ár skapandi hugsun og nýsköpun

MYND/GVA

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, leggur til að ríkisstjórnin tileinki næsta ár skapandi hugsun og nýsköpun og vill að stjórnmálaflokkar á Alþingi sameinist um lausn efnahagsvandans í stað þess að deila.

Í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins segir Þór að kreppa sé móðir tækifæra og nýsköpunar og nú gefist tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Borgarstjórn Reykjavíkur hafi þegar látið til sín taka, sett leiðingakarp til hliðar og tekið upp náið samstarf á erfiðum tímum þvert á flokkslínur.Þingið þyrfti sömu hugarfarsbreytingu.

Hann varar einnig við því að leita að öllum svörum við atvinnuleysi hjá stjórnmálamönnum eða að ein eða fáar atvinnugreinar verði að allsherjarlausnum. „Það er ekki hagur neins að einhæfni ríki í atvinnumálum hérlendis. Við erum búin að reyna það og árangurinn var misjafn. Á tímum hafta og ríkisforsjár voru atvinnugreinar valdar út eftir því hvað stjórnvöldum hugnaðist. Þegar frelsi var aukið og dyr opnaðar breyttist þetta. Nú eigum við öflug fyrirtæki á fjölmörgum sviðum sem mynda nýjar og fjölbreyttar stoðir undir íslenskt atvinnulíf," segir Þór.

Þá sé búið að fjárfesta í fjölbreyttum skólum og menntun fólks og nú eigi að láta reyna á hæfileika þess og styðja við bakið á þeim sem vilji skapa hér fjölbreytta flóru fyrirtækja og nýsköpunar. „Væri ekki ráð að ríkisstjórn Íslands tileinki árið 2009 skapandi hugsun og nýsköpun?" spyr Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×