Innlent

Segja borgarstjóra liggja flatan fyrir auðmönnum

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, var málshefjandi.
Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, var málshefjandi. Mynd/ Stefán.

Hallargarðurinn er í eigu almennings og borgaryfirvöld eiga að hafa fullan og óskoraðan rétt til að sinna honum eins og öðrum opnum svæðum borgarinnar án íhlutunar einkaaðila. Þetta kemur fram í bókun sem borgarfulltrúar Vinstri-grænna lögðu fram í borgarstjórn Reykjavíkur í dag.

Þar segir að Vinstri grænir hafi lagst gegn sölu hússins á sínum tíma en steininn taki úr þegar auðmenn fái heimild til til vegagerðar inni í Hallargarðinum, að breyta gömlu gerði bakvið húsið auk annarra breytinga.

„Borgarfulltrúar hafa nú í vetur ítrekað verið minntir á mikilvægi þess að gæta vel að almannahagsmunum þegar ásælni einkaaðila verður sem áköfust. Meðal annars hefur umboðsmaður Alþingis spurt alvarlegra og gagnrýninna spurninga um ráðstöfun á opinberum eigum sem fulltrúum meirihlutans væri hollt að hafa í huga. Við samskipti af þessu tagi ber okkur, kjörnum fulltrúum að gæta hagsmuna almennings en ekki sérhagsmuna einstaklinga, sama hvað þeir heita og sama hvað þeir eru auðugir. Til þess vorum við kosin og þar liggur ábyrgð okkar," segir í bókun Vinstri grænna.

Þá segja Vinstri grænir að það veki furðu að Ólafur F. Magnússon skuli nú leggjast flatur fyrir auðmönnum og fótum troða umhverfis- og almannahagsmuni, þvert á fyrri yfirlýsingar.

Ólafur lýsti sig andvígan sölu Fríkirkjuvegs 11 þegar hugmyndir þess efnis voru fyrst reifaðar í meirihlutasamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×