Innlent

Ákæra í átta liðum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kannabisplöntur. Myndin tengist ekki þessu máli.
Kannabisplöntur. Myndin tengist ekki þessu máli. MYND/Páll Bergmann

Sælgætisþjófnaður, ræktun kannabisplantna, ítrekaður akstur undir áhrifum fíkniefna og tilraun til að smygla fíkniefnum inn í fangelsið í Kópavogi er meðal þess sem tæplega fertugum karlmanni er gefið að sök í ákæru sem þingfest var í gær við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Ákæran telur alls átta liði og ná brotin yfir 13 mánaða tímabil. Fíkniefnin sem ákært er fyrir eru ýmist kannabisstönglar, kannabisgræðlingar, hass eða maríjúana en síðasttalda efninu reyndi ákærði að smygla til fanga í Kópavogsfangelsinu með því að setja efnið í sokk sem hinn síðarnefndi lét síga út um glugga á fangaklefa.

Maðurinn er enn fremur ákærður fyrir ræktun kannabisplantna en í ákæru greinir að hann hafi gróðursett kannabisgræðlinga í fimm sérútbúin hólf við útjaðar lóðar sinnar. Þá er ákært fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í þrjú skipti og þar af eitt skipti fyrir að hafa haft fíkniefni í bifreiðinni við aksturinn.

Að lokum er ákærða gefið að sök að hafa stolið sælgæti að verðmæti 534 krónur í verslun 11-11 og gerir Kaupás hf., rekstraraðili verslunarinnar, kröfu um skaðabætur er nema þeirri upphæð auk vaxta og dráttarvaxta.

Ákæruvaldið krefst refsingar samkvæmt lögum, sviptingar ökuréttar og upptöku þeirra efna og plantna sem við sögu koma í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×