Innlent

Enginn ágreiningur um að auka gjaldeyrisforða

MYND/GVA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir undirbúning hafinn að því að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans en niðurstaða sé ekki fengin í það mál. Ráðherra segir ekki ágreining um málið við Seðlabankann en spurning sé hvenær og hvernig forðinn verði aukinn.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, spurði utanríkisráðherra út í efnahagsmál við upphaf þingfundar í dag. Sagði hún afar erfitt að átta sig á því hver áform stjórnvalda væru varðandi gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Ríkisstjórnarforkólfarnir hefðu haldið fund með Seðlabankanum 2. apríl og fundurinn hefði verið sagður mikilvægur, svo mikilvægur að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hefðu þurft að taka einkaþotu til Búkarest á leiðtogafund NATO.

Hins vegar hefði ekkert heyrst af niðurstöðum fundarins og 10. apríl hefði Davíð Oddsson seðlabankastjóri lýst því yfir að meginverkefni íslensku bankanna væri að bjarga sér sjálfir og að það kostaði mikið fé að halda stóran gjaldeyrisforða.

Svo hefði nýverið birst viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu í Berlingske Tidende þar sem hún hefði sagt að öllum bönkum yrði boðin aðstoð og að ríkisstjórnin væri tilbúin að styðja bankana beint með fjárframlögum úr ríkissjóði. Spurði Valgerður hvort ágreiningur væri á milli ríkisstjórnarflokkanna um aðgerðir eða á milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans eða hvort tveggja.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði að enginn ágreiningur væri um það í landinu að mikilvægt væri að bankarnir gætu leitað eftir lausafé ef þeir þyrftu. Seðlabankinn ætti að vera lánveitandi þeirra til þrautavara og gæti farið ýmsar leiðir í þeim efnum. Fram hefði komið að Seðlabankinn hefði verið að skoða lánalínur í erlendum bönkum og einnig að auka gjaldeyrisforðann. Verið væri að skoða aðgerðir en niðurstaða væri ekki komin í málin.

Benti Ingibjörg Sólrún á að Seðlabankastjóri hefði lagt á það áherslu að þetta væri ekki spurning um nokkra daga. Bankarnir hefðu sagt að þeir væru vel fjármagnaðir til nokkurra mánaða. Aðstoð þyrfti hugsanlega að vera fyrir hendi síðar og að því ynnu menn núna. Þá sagði hún það hafa komið skýrt fram af hálfu hennar, Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra að mikilvægt væri að styrkja gjaldeyrisforðann en spurning væri hvenær og hvernig það yrði gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×