Innlent

Sjötíu þúsund bílar á þremur árum

MYND/GVA

Það lætur nærri að 70 þúsund bílar hafi verið fluttir inn til landsins á árunum 2005-2007 og nýjum íbúðum fjölgaði um 10.300 á sama tíma. Hins vegar fjölgaði landsmönnum um tæplega 20 þúsund manns á sama tímabili.

Í Þjóðarbúskapnum, nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðneytisins, kemur fram að að eftir öran vöxt undanfarin ár á íbúðamarkaði sé gert ráð fyrir að samdrætti og lækkun fasteignaverðs. Byggingaverktakar séu um þessar mundir með verulegan fjölda óseldra íbúða á höfuðborgarsvæðinu.

Bent er á að í fyrra hafi íbúðum fjölgað óvenjumikið, eða um nærri 4900. Þar af eru nærri 1500 íbúðir á Keflavíkurflugvelli sem eru í fyrsta sinn taldar með. Stærstur hluti íbúðanna er enn utan markaðarins en hluti þeirra er nú leigður til námsmanna.

Þegar íbúðafjölgun áranna 2005-2007 er lögð saman kemur í ljós að 10.300 nýjar íbúðir hafa komið inn á markaðinn. Segir fjármálaráðuneytið að ýmislegt bendi til að fjölgunin hafi verið umfram þarfir markaðsins og ætla verði að þar með sé mikilli bylgju nýbygginga lokið að sinni.

Dregur úr bílainnflutningi á næstunni

Tölur um innflutta bíla benda einnig til mikillar þenslu. Segir fjármálaráðuneytið að það láti nærri að 70 þúsund bílar hafa verið fluttir inn samanlagt á árunum 2005-2007. „Mikil kaupmáttaraukning vegna hagvaxtar og auðsáhrifa frá eignaverði og hagstætt gengi skýra þessa þróun," segir í Þjóðarbúskapnum.

Gert er ráð fyrir að bílainnflutningur dragist saman á næstunni af tvennum sökum, minnkandi vexti kaupmáttar og ekki síst vegna veikingar á gengi krónunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×