Innlent

Plank í gæsluvarðhaldi til 6. maí

Plank var handtekinn í Árbæ í síðasta mánuði í tengslum slagsmál manna.
Plank var handtekinn í Árbæ í síðasta mánuði í tengslum slagsmál manna.

Premyslaw Plank, sem grunaður um aðild að manndrápi og er eftirlýstur í heimalandi sínu, var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 6. maí í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni í Reykjavík að Plank hafi verið handtekinn í gær eftir að beiðni um handtöku hans barst frá pólskum yfirvöldum.

Framsalsmál eru afgreidd á milli dómsmálaráðuneyta viðkomandi landa. Í lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum kemur meðal annars fram að úrskurða megi menn í gæsluvarðhald uns úr því er skorið hvort framsal skal fara fram og síðan þangað til framsal er framkvæmt sé það heimilað.

„Ef kveðinn er upp úrskurður um gæsluvarðhald skal því ekki markaður lengri tími en 3 vikur. Þyki nauðsyn bera til að lengja gæsluvarðhaldstímann skal það gert með úrskurði á dómþingi þar sem gæslufanginn er viðstaddur. Ekki má framlengja gæsluvarðhaldstímann um meira en 2 vikur í senn," segir í lögunum.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag segist fulltrúi saksóknara í Bydgoszcz í Póllandi hafa órækar sannanir fyrir því að Plank sé sekur um hrottalegt morð sem framið var í borginni síðasta sumar. Gögn saksóknara benda til þess að það hafi verið meðlimir Neidzíóla-glæpaklíkunnar sem myrtu boxarann Hamel síðasta sumar og að Plank hafi verið sérfræðingur klíkunnar í því sem embættið kallar "vafasöm verkefni". Með öðrum orðum að Plank hafi verið eins konar leigumorðingi Niedzóla-glæpaklíkunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×