Innlent

Frumvarp um 100.000 kr. frítekjumark öryrkja

Jóhanna Sigurðardóttir hefur enn ástæðu til að brosa breitt.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur enn ástæðu til að brosa breitt.

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, þar sem lagt er til að á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geti öryrkjar valið um að hafa 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar.

Frumvarpið felur í sér að á umræddu tímabili geti örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar aflað atvinnutekna allt að 100.000 kr. á mánuði án þess að þær skerði tekjutryggingu. Hér er um mikla hækkun frítekjumarksins að ræða en við núverandi ástand skerðist tekjutrygging vegna atvinnutekna umfram 327.000 kr. á ári, eða um 27.000 kr. á mánuði. Þann 1. janúar 2009 er gert ráð fyrir að nýtt örorkumatskerfi hafi öðlast gildi og komi í stað þessa frítekjumarks.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins voru liðlega 30% örorkulífeyrisþega með launatekjur eða reiknað endurgjald í desember 2007 eða um 4.600 einstaklingar. Samkvæmt útreikningum stofnunarinnar má áætla að þar af muni um 2.650 einstaklingar hafa ávinning af hækkun frítekjumarks á atvinnutekjur í 100.000 kr. á mánuði. Félags- og tryggingamálaráðuneytið greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×