Innlent

Fundar með formanni og borgarfulltrúa Framsóknar vegna ummæla

MYND/Anton

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri mun funda með bæði borgarfulltrúa og formanni Framsóknarflokksins eftir helgi til þess að reyna að setja niður deilur vegna orða borgarstjóra um flokkinn í fjölmiðlum.

Deilur hafa staðið á milli Ólafs og Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, vegna orða sem borgarstjóri lét falla um Framsóknarflokkinn og meinta þjónkun hans við verktaka og auðmenn í borginni.

Ummælin féllu í kvöldfréttum Sjónvarps í tengslum við umfjöllun um vanda miðborgarinnar. Orðrétt sagði borgarstjóri: „Það hafa orðið þau umskipti í borginni að í fyrsta skipti í langan tíma er sá flokkur sem lengst hefur gengið í þjónustu við verktaka og auðmenn, Framsóknarflokkurinn ekki í meirihluta í Reykjavík.

Og ég held að þess muni sjást stað í skipulagsmálunum og uppbyggingunni þar að við erum að gæta hagsmuna borgarbúa en ekki einhverra tiltekinna sérhagsmunahópa eða flokksmanna, eða verktaka eða annara sem (hafa) mikla umsýslu og fé undir höndum."

Óskar spurði borgarstjóra út í málið á borgarstjórnarfundi og lét borgarstjóri þau orð falla að ummælin beindust ekki að Óskari sjálfum heldur Framsóknarflokknum. Við það sætti Óskar sig ekki og fór fram á það að borgarstjóri rökstyddi aðdróttanir sínar, ellegar drægi orðin til baka og bæðist afsökunar.
Óskar Bergsson.

Á borgarráðsfundi í gær lagði borgarstjóri fram svar við fyrirspurn Óskars vegna málsins en Óskar segir í samtali við Vísi að svarið hafi að hans mati ekki verið fullnægjandi. „Það varð hins vegar að samkomulagi við Ólafur munum hittast með formanninum (Guðna Ágústssyni) til þess að fara yfir þessi ummæli. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn hittist og ræði málin og hætti að skiptast á órökstuddum skeytasendingum," segir Óskar. Fundurinn verður eftir helgi að sögn Óskars.

Þetta eru ekki fyrstu deilur Ólafs og Óskars því í síðasta mánuði lét borgarstjórinn þau orð falla að borgarstjórn setti niður við nærveru Óskars. Var það í kjölfar þess að Óskar spurði um aðkomu aðstoðarmanns borgarstjóra að vinnu við deiliskipulag við Laugaveg. Ólafur dró þessi ummæli síðar til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×