Innlent

Ofurölvi fangar dæmdir fyrir að berja bruggmeistara

Andri Ólafsson skrifar
Margrét Frímannsdóttir.
Margrét Frímannsdóttir.

Tveir fangar á Litla-Hrauni voru í Héraðsdómi Suðurlands dag dæmdir fyrir að hafa barið samfanga sinn í júlí á síðasta ári.

Árásarmennirnir voru báðir ofurölvi þegar árásin átti sér stað en þeir höfðu verið við drykkju í klefa annars fangans um nokkurt skeið. Fangarnir drukku illa bruggaðan gambra sem samfangi þeirra hafði lagað. Þegar bruggarinn neitaði að gefa föngunum meiri gambra réðust fangarnir á hann með þeim afleiðingum að hann braut sköflung og hlaut ýmsa aðra áverka.

Þá spörkuðu fangarnir í hann þegar hann lá í gólfinu. Í eitt skiptið spörkuðu þeir svo fast í magann á honum að hann missti hægðir.

Fangarnir neituðu báðir sök. Annar viðurkenndi reyndar að hafa slegið manninn einu sinni en neitaði að hafa veitt bruggaranum þá áverka sem hann hlaut. Báðir báru þeir við minnisleysi sökum ölvunar.

Sá sem neitaði alfarið sök féll eins árs dóm fyrir árásina, þar af níu mánuði skilorðsbundið. Hinn var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litla-Hrauni, segir að ekki sé mikið um það að fangar séu að brugga gambra í fangelsinu. Það komi hins vegar fyrir að menn reyni það. Í fangelsinu er verslun og fangar sem elda og baka komast stundum yfir sykur og annað sem notað er í bruggið.

Margrét segir að bruggi fylgi mikill fnykur sem geri föngum erfitt að leyna því sem þeir eru að gera. "En menn reyna allt," segir Margét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×