Sport

Ragna náði sér ekki á strik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragna hefur því miður lokið þátttöku sinni á Ólympíuleikunum í Peking.
Ragna hefur því miður lokið þátttöku sinni á Ólympíuleikunum í Peking. Mynd/Vilhelm

Ragna Björg Ingólfsdóttir féll í nótt úr leik í keppni í einliðaleik kvenna í badminton á fyrsta keppnisdegi Ólympíuleikanna í Peking.

Hún tapaði fyrir Eriko Hirose frá Japan sem er talsvert ofar en Ragna á heimslistanum. Hún varð að hætta vegna meiðsla seint í viðureigninni. Hún tapaði fyrri lotunni, 21-6 og staðan í þeirri síðari var 19-7 fyrir Hirose þegar Ragna varð að gefa viðureignina.

Sú japanska byrjaði mjög vel og náði snemma strax öruggri forystu, 9-3. Ragna náði ekki að svara þessari sterku byrjun og Hirose gekk á lagið.

Svipað var upp á teningnum í síðari lotunni. Hirose komst í 11-2 forystu en þá fór Ragna að standa meira í andstæðingi sínum. Því miður fyrir hana var það aðeins of seint og Hirose reyndist einfaldlega of sterk.

Í stöðunni 19-7 lenti Ragna illa á hnénu þar sem hún er með slitið krossband og varð því að hætta. Hún var greinilega kvalin en hún hefur síðustu mánuði keppt með þessi meiðsli og því vel meðvituð um að þau gætu haft sitt að segja.

Gangur leiksins:

1. lota: 2-0, 5-1, 9-2, 10-4, 16-4, 18-5, 21-6.

2. lota: 4-0, 6-2, 11-2, 12-3, 12-5, 17-5, 18-6, 19-7 (Ragna hætti).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×