Formúla 1

Lando Norris er For­múlu 1 heims­meistari í fyrsta sinn

Aron Guðmundsson skrifar
Lando Norris er heimsmeistari ökumanna í Formúlu 1 árið 2025
Lando Norris er heimsmeistari ökumanna í Formúlu 1 árið 2025 Vísir/Getty

Hinn 26 ára gamli Lando Norris, ökumaður McLaren, er heimsmeistari ökumanna í Formúlu 1 árið 2025 og í fyrsta skipti á sínum ferli. Þetta varð ljóst eftir keppni dagsins í Abu Dhabi.

Þrír ökumenn áttu möguleika á heimsmeistaratitlinum fyrir lokakeppni tímabilsins í Abu Dhabi í dag en auk Norris eygðu þeir Max Verstappen hjá Red Bull Racing og Oscar Piastri hjá McLaren von um að skáka Bretanum á toppi stigakeppninnar.

Það þurfti mikið að gerast til þess að Norris, sem ræsti í 2.sæti á eftir Verstappen og á undan Piastri í keppni dagsins, myndi ekki tryggja sér heimsmeistaratitilinn og þrátt fyrir erfiða byrjun þar sem að hann missti Piastri fram úr sér, náði Norris að halda fókus og koma í mark í þriðja sæti og þar með tryggja sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil.

„Ég hef ekki grátið svona mikið lengi,“ sagði Norris eftir að titillinn var tryggður. „Það er löng vegferð að baki.“

Norris þurfti að yfirstíga erfiðar hindranir á tímabilinu sem og í keppni dagsins, lengi vel var hann að elta liðsfélaga sinn Piastri í stigakeppninni en náði á magnaðan hátt, eins og sannur meistari, að koma sér á toppinn og halda sér þar þrátt fyrir ótrúlegt áhlaup fjórfalda heimsmeistarans Max Verstappen á seinni hluta tímabilsins.

Norris endar sem heimsmeistari, McLaren sem heimsmeistari bílasmiða, frábært tímabil að baki hjá breska ökumanninum og breska liðinu á síðasta tímabili Formúlu 1 fyrir stórar breytingar sem taka gildi á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×