Innlent

Síldveiðar við Ísland í uppnámi

Síldveiðar við Ísland eru í uppnámi. Ef allt fer á versta veg blasir milljarðatjón við sjávarútveginum og tugir uppsagna við síldarvinnslu vofa yfir. Áfall, segir sjávarútvegsráðherra en segir ekki tímabært að ræða aukakvóta til að veiða upp sýktu síldina. Lóa Pind Aldísardóttir hitti menn á leið út af krísufundi hjá Hafrannsóknarstofnun nú síðdegis.

Boðað var til fundarins í skyndi og þangað mættu fulltrúar útgerða, LÍÚ, Hafró og sjávarútvegsráðherra eftir að fregnir bárust frá síldveiðiskipunum við landið á föstudaginn að síldin sem kæmi í nótina væri sýkt, af svokölluðum Iktíófónus. Óvíst er um umfangið - en sýkingin mun býsna útbreidd. Nefndar hafa verið tölur um uppundir fjörutíu prósent aflans. Það er varla fögur sjón, því þegar sýkingin er komin í fiskholdið verður síldin blóðhlaupin með hnútum þar sem sníkjudýrið hefst við. Tjónið gæti orðið mikið og þýtt tugi uppsagna, segir framkvæmdastjóri LÍÚ.

Dýralæknir hjá Matvælastofnun segir að nú þurfi útgerðir að ákveða hvort vinnslu til manneldis verði hætt og allt sett í bræðslu - sem gefur umtalsvert minna af sér - jafnvel þótt síldin sé hættulaus til matar. Hann segir mögulega leið til að komast fyrir sýkinguna að veiða síldina nú grimmt, áður en hún breiðist út eins og eldur í sinu - því hún virðist fara hratt yfir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×