Innlent

Fullyrt að Hollendingar og Bretar ætli sér að koma í veg fyrir IMF - lánið

Hollenska viðskiptablaðið RNC fullyrðir að Hollendingar og Bretar ætli sér að koma í veg fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fallist á lán til handa Íslendingum ef ekki verði greitt úr Icesave deilunni fyrst. Blaðið segist hafa þetta eftir heimildum innan úr hollenska fjármálaráðuneytinu sem þó vilji ekki staðfesta það opinberlega. Bretar eiga samkvæmt fréttinni að vera samstíga Hollendingum í málinu án þess að þeir vilji tjá sig um það.

Blaðið vitnar til orða Geirs H. Haarde forsætisráðherra frá því í gær þegar hann sagði að um aðskild mál væri að ræða og að IMF lánið tengdist ekki viðræðum við Breta og Hollendinga varðandi Icesave. Heimildir blaðsins bendi hins vegar til annars.

Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fyrrverandi aðalfulltrúi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hjá IMF sagði einnig í samtali við Vísi í gær að ólíklegt verði að teljast að þjóðirnar tvær gætu stöðvað lánið, enda hefði málið verið unnið í samstarfi við fulltrúa IMF og þegar hlotið blessun yfirstjórnar sjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×