Innlent

Samráð ráðherra í algjörum molum á ögurstundu

MYND/Anton

Siv Friðleifsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd, segir að ekki verði annað ályktað annað af símtali Árna Mathiesen fjármálaráðherra og Alistairs Darling, starfsbróður hans, í október eftir fall bankanna en að samráð Árna við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hafi verið í algjörum molum á ögurstundu.

Þetta kemur fram í bókun hennar á fundi utanríkismálanefndar í morgun. Siv segir einnig að út frá símtali Árna og Darlings verði ekki annað ráðið en að viðskiptaráðherra hafi á fundi sínum þann 2. september gefið breskum stjórnvöldum loforð eða yfirlýsingu af einhverju tagi vegna stöðu Landsbankans og hugsanlega annarra banka, sem síðan fjármálaráðherra virðist ekki kannast við.

„Símtal ráðherranna lak til fjölmiðla og birtist opinberlega fyrst á Íslandi. Upplýsingaleki af þessum toga veldur óbætanlegum álithnekki á íslenskri stjórnsýslu og stórskaðar stöðu Íslands í samskiptum við stjórnvöld annarra landa. Í kjölfar þessa er ólíklegt að ráðherrar annarra landa treysti sér til að eiga trúnaðarviðræður við íslenska stjórnvöld og ráðherra um nokkurt sem máli skipti um langt skeið. Verða slík samtöl væntanlega um léttvæg mál allt þar til tekist hefur að skapa traust á íslenskri stjórnsýslu á nýjan leik.

Beðið er um að nefndin verði upplýst um hvernig ofangreint símtal lak til fjölmiðla í ljósi alvarleika málsins," segir einnig í bókun Sivjar.

Auk þessa bað Siv um að öll minnisblöð vegna fundar Björgvins G. Sigurðssonar og Alistair Darling þann 2. september yrðu lögð fram og sömuleiðis minnisblöð vegna símtals Árna og Darlings. Þá bað hún um bréf sem Árni vitnar ítrekað í í viðtalinu og afrit af samningi sem íslensk stjórnvöld gerðu nýlega við hollensk stjórnvöld vegna deilna um Icesave-reikningana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×