Erlent

Japanar hyggjast mynda drauma

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Japanskir vísindamenn hafa nú þróað tækni sem gerir þeim kleift að ná myndum af draumum fólks.

„Eigi er mark að draumum," er setning sem margir minnast úr Gunnlaugs sögu Ormstungu. Einhverjir freistast því vafalaust til að kalla það draumóra eina að ná myndum af því sem fólk dreymir en Japanar kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að furðulegum vísindum og framúrstefnulegum.

Nú hefur hópur vísindamanna undir stjórn doktor Yukiyaso Kamitani þróað aðferð til að nota mynstur í heilabylgjum til að kalla fram mynd sem búin er til með rafboðum sem draumar kalla fram í sjónstöðvum heilans. Hljómar eins og að drekka vatn eða hvað? Ekki alveg kannski enda hefur hópurinn unnið baki brotnu árum saman að því að ná þessu sérstaka markmiði sínu.

Með þessu vonast þeir til að í framtíðinni geti fólk tekið drauma sína upp líkt og kvikmynd og horft á þá í vöku. Gísla Súrssyni hefði vafalaust þótt fengur í því en hann átti sér tvær draumkonur, aðra góða en hina illa, og spáði sú síðarnefnda fyrir um dauða hans. „Svá vakði mig Sága, saums ór mínum draumi," kvað Gísli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×