Innlent

ASÍ segir Geir fara með rangt mál

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Alþýðusambands Íslands segir rangt hjá Geir H. Haarde forsætisráðherra að hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi og olíugjaldi hækki ekki verðbólgu. Geir hélt þessu fram í hádegisfréttum RÚV.

„Þetta er því miður rangt hjá forsætisráðherra," segir í tilkynningu frá ASÍ. „Hækkun þessara gjalda mun leiða til þess að neysluvísitalan hækkar um 0,4-0,5%." Þetta hafi meðal annars komið fram hjá sérfræðingum Hagstofu Íslands í sama fréttatíma.

„Afleiðing þessa er að verðtryggt lán upp á eina milljón króna mun hækka um 5 þúsund krónur og 20 milljón króna verðtryggt húsnæðislán því hækka um hundrað þúsund krónur. Samtals munu verðtryggð lán heimilanna, sem eru 1.400 milljarðar króna, hækka um 6-7 milljarða króna bara vegna þessarar ákvörðunar og þá eru ótaldar aðrar gjaldskrárhækkanir eins og afnotagjöld RÚV og fleira."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×