Innlent

SkjárEinn heldur áfram og flestir starfsmenn endurráðnir

Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Sigríður Margrét Oddsdóttir.

Sjónvarpsstöðin SkjárEinn mun halda áfram útsendingum og flestir starfsmenn stöðvarinnar verða endurráðnir. Þessi ákvörðun er tekin að því gefnu að umsvif Ríkisútvarpins á auglýsingamarkaði verði takmörkuð en frumvarp þess efnis er nú til umfjöllunar á Alþingi. Öllum starfsmönnum stöðvarinnar var sagt upp á dögunum og var ráðgert að hætta útsendingum að óbreyttu eftir áramót.

„Í frumvarpinu eru settar skorður við þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði. Reikna má með að sú ráðstöfun efli tekjugrunn SkjásEins sem reiðir sig eingöngu á auglýsingatekjur," segir í tilkynningu frá SkjáEinum. „Á undanförnum vikum hefur verið endursamið við erlenda birgja SkjásEins og efniskostnaður lækkaður. Þessar tvær breytingar á rekstrargrunni stöðvarinnar, annars vegar lækkun efniskostnaðar og hins vegar sanngjarnara samkeppnisumhverfi á auglýsingamarkaði, gera það að verkum að forsvarsmenn SkjásEins hafa ákveðið að halda rekstrinum áfram," segir einnig.

Sigríður Margrét Oddsdóttir sjónvarpsstjóri stöðvarinnar segir að mikilvæg skref hafi verið stigin með frumvarpi menntamálaráðherra í átt að sanngjarnara samkeppnisumhverfi. „Þar kemur fram skýr pólitískur vilji þó að vissulega hefðum við kosið að sjá meiri takmarkanir," segir Sigríður.

„Það sem skiptir mestu máli er að vilji stjórnvalda er skýr. Starfshópur menntamálaráðherra og starfsfólk ráðuneytisins hafa trú á því að í nýju frumvarpi felist umtalsverðar takmarkanir á umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði," segir sjónvarpsstjórinn ennfremur og bætir við:

„Við ætlum að treysta stjórnvöldum fyrir því að þetta sé rétt mat, ekki síst þar sem í frumvarpinu er ákvæði um endurskoðun fyrir 1. júlí á næsta ári. Það þýðir að tækifæri verður til þess að bregðast við ef markmiði frumvarpsins verður ekki náð, þ.e. að veita einkareknu stöðvunum aukið svigrúm."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×