Innlent

Ágúst Ólafur vill að seðlabankastjórar víki

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

 

Einn liður í því að komast út úr núverandi ástandi er að skipta um seðlabankastjóra, að mati Ágústs Ólafs Ágústssonar varaformanns Samfylkingarinnar.

,,Ég tel að bankastjórar Seðlabankans hafi gert ítrekuð mistök og því ber þeim að víkja. Á meðan að yfirstjórnin nýtur ekki trúðugleika gerir bankinn það ekki heldur, segir Ágúst Ólafur og bætir við að hann telji að hann deili þessari skoðun með fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar.

Ágúst Ólafur segir að fjölmörg mistök hafi verið gerð. Gjaldeyrisvaraforði hafi ekki verið tryggður þegar bankinn hafði tækifæri til þess og aðgangur að lánsfé hafi sömuleiðis ekki verið tryggður. ,,Í þriðja lagi voru ummmæli seðlabankastjóra í Kastljósi afar óheppileg og í fjórða lagi var hugsanlegu láni Rússa stefnt í hættu vegna fréttatilkynningar frá Seðlabankanum. Svona mætti lengi telja áfram."

Aðspurður hvort að bankaráð bankans eigi einnig að víkja segir Ágúst Ólafur að ábyrgðin sé fyrst og fremst hjá bankastjórunum og ákvarðnir séu teknar af þeim.

Ágúst Ólafur vill allhressilega stýrivaxtarlækkun. ,,Við stöndum frammi fyrir því að hjól atvinnulífsins stöðvist að fullu og það má aldrei gerast. Þannig að vaxtastefna Seðlabankans ásamt seðlbankastjórunum er gjaldþrota í mínum huga."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×