Innlent

Umboðsmaður hefur áhyggjur af framkvæmd neyðarlaga

Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis hefur á heimasíðu sinni birt grein þar sem hann reifar samskipti sín við fulltrúa stjórnvalda vegna setningar neyðarlaganna svokölluðu í október. Umboðsmaður fundaði með fulltrúum ráðuneyta og Fjármálaeftirlitsins þann 28. október þar sem hann taldi nauðsynlegt að koma á framfæri við fulltrúa stjórnvalda þeim áhyggjum sem hann hefði vegna stjórnsýslu við framkvæmd neyðarlaganna. Þar var farið yfir minnisblað með tólf tölusettum liðum sem umboðsmaður vildi vekja athygli á. Mánuði síðar sendi hann forsætisráðherra bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort stjórnvöld hefðu brugðist við ábendingum hans.

Svör hafa nú borist og birtir umboðsmaður svörin á heimasíðu sinni samhliða upphaflegu atriðunum sem snúa meðal annars að því að spyrja hver lagaleg staða skilanefndanna sé og minna á að yfirlýsingar stjórnvalda verði að vera efnislega réttar, en í því sambandi er rætt um fréttir frá stjórnvöldum um stöðuna í Icesave málinu og það sem snéri að Hollendingum. Þá spyr umboðsmaður út í nýju bankana og spyr hvort þeir séu opinber hlutafélög.

Umboðsmaður Alþingis leggur áherslu á áherslu á að „stjórnvöld virði þær grundvallarreglur sem taldar eru gilda um meðferð valds stjórnsýslunnar gagnvart borgurunum og um gegnsæi í athöfnum og ákvörðunum sem stjórnvöld taka við framkvæmd og skipulagningu þessara mála."

„Þetta er sérstaklega brýnt þar sem sá lagarammi sem Alþingi hefur búið ákvörðunarvaldi stjórnsýslunnar um þessi mál er takmarkaður og það þótt stjórnsýslunni séu fengnar verulegar og viðamiklar heimildir til þess að hlutast til um málefni einstaklinga og fyrirtækja," segir í bréfi sem hann sendi forsætisráðherra eftir að svör hans höfðu borist. Í sama bréfi kemur fram að umboðsmaður muni ekki, að minnsta kosti að sinni, taka efnislega afstöðu til þess sem fram kemur í svörunum.

Spurningar umboðsmanns og svör forsætisráðherra má sjá hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×