Innlent

32 lögreglumenn brautskráðir

Brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fór fram 12. desember.
Brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fór fram 12. desember. MYND/Júlíus Sigurjónsson

Brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fór fram 12. desember. Brautskráðir voru í hátíðlegri athöfn í Bústaðakirkju 32 nemendur sem hófu nám við skólann í september árið 2007. Sjö konur voru þar á meðal eða ríflega 22% hópsins.

Nemendurnir sem voru brautskráðir að þessu sinni hafa lokið almennu grunnnámi frá Lögregluskóla ríkisins og öðlast færni til að takast á við öll almenn löggæslustörf hvar sem er á landinu.

Við athöfnina fluttu ávörp Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna og Guðlaugur Freyr Jónsson, sem talaði fyrir hönd útskriftarhópsins.

Í ræðu sinni ítrekaði Arnar að starf lögreglumanna væri oft erfitt og lögreglu ögrað og því þyrftu lögreglumenn að temja sér eiginleika eins og aga, hugrekki og ráðkænsku.

Að lokum þakkaði Arnar, fyrir hönd allra starfsmanna Lögregluskóla ríkisins, nemendunum samfylgdina, óskaði þeim velfarnaðar og alls góðs. Hann sagðist vonast til þess að þeir færu allir til starfa í lögreglu ríkisins, annað væri sóun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×