Erlent

Skókastarinn biðst afsökunar

Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, gerði tilraun til að verja skot blaðamannsins sem þeytti skóm sínum að Bush. MYND/AFP/Getty Images
Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, gerði tilraun til að verja skot blaðamannsins sem þeytti skóm sínum að Bush. MYND/AFP/Getty Images

Íraski blaðamaðurinn sem kastaði skóm í átt að George Bush, Bandaríkjaforseta, og Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, fyrr í vikunni hefur beðist afsökunar. Afsökunarbeiðnin beinist þó ekki að Bush, heldur Maliki.

Ekki er hægt að móðga nokkurn meira í Mið-Austurlöndum en með því að kasta skónum sínum í þá. Skókastarinn Muntazer al-Zaidi á yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi fyrir athæfið.

Bush tókst naumlega að víkja sér undan þegar skóm var kastað í hann á blaðamannafundinum í Bagdad á sunnudaginn en þangað var forsetinn fráfarandi kominn í kveðjuheimsókn. ,,Þetta er kveðjukossinn frá írösku þjóðinni, hundur," sagði al-Zaidi þegar hann grýtti skóm sínum í átt að Bush.

Talsmaður forsætisráðherrans segir að al-Zaidi hafi sent Maliki bréf þar sem hann biðst afsökunar á hegðun sinni. Skókastarinn er í haldi lögreglu sakaður um fólskulegan verknað eins og það er orðað. Fjölskylda al-Zaidi segir að hann sé handleggsbrotinn og kenni sér meiðs víða eftir að hafa verið tæklaður og dreginn í burtu af liðsmönnum bandarísku leyniþjónustunnar og íröskum öryggisvörðum.

Al-Zaidi varð frægur þegar óþekktir byssumenn rændu honum 2007. Hann er sjíamúslimi og sagður reiður Bandaríkjamönnum þess hve margir almennir borgarar hafi fallið frá innrásinni í Írak 2003.




Tengdar fréttir

Skóm grýtt að Bush

George Bush Bandaríkjaforseta tókst naumlega að víkja sér undan þegar skóm var kastað í hann á blaðamannafundi í Írak. Forsetinn h kom til Bagdad í kveðjuheimsókn í gær. Á blaðamannafundi með Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, fékk hann heldur kaldar kveðjur.

Skókastaranum fagnað sem þjóðhetju

Íraska blaðamanninum, sem grýtti skóm sínum að George Bush Bandaríkjaforseta í Baghdad í gær með ókvæðisorðum, er nú fagnað sem þjóðarhetju í Mið-Austurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×